Við þurfum fleiri fyrirtæki á markað!

Á að skrá eða ekki skrá fyrirtæki í kauphöll? Í huga sennilega flestra Íslendinga er skráning fyrirtækis á markað eins konar viðurkenning á því að fyrirtækið sé orðið þroskað eða stórt og að það sé markaður fyrir hlutabréf í viðkomandi fyrirtæki. Þetta hangir annars vegar á viðhorfi hluthafanna sjálfra til fyrirtækisins en ekki síður á væntingum fjárfesta til hlutabréfamarkaða í heild sinni. Hér á landi er tiltölulega stutt hefð fyrir skráningu fyrirtækja á markað og flest skráð íslensk fyrirtæki í sögulegu samhengi eru tiltölulega þroskuð, a.m.k. komin yfir bernskubrekin. Þessu er þó ekki endilega þannig hagað á Norðurlöndunum þar sem mun lengri hefð er fyrir viðskiptum á hlutabréfamarkaði.

Skráning fyrirtækis getur falið í sér tvennt. Annars vegar að fara í hlutafjárútboð þar sem fyrirtækið dregur að sér nýja hluthafa og fjármagn. Hins vegar getur verið um hreina skráningu að ræða án hlutafjárútboðs. Í báðum tilfellum verður tiltekinn eða allur hluti hluta í fyrirtækinu opinn fyrir frjálsum kaupum og sölum í gegnum þann markað í kauphöll sem skráning fer fram á.

NordicMarkets
Gróft yfirlit yfir norrænu hlutabréfamarkaðina.

Nasdaq kauphöllinni á Norðurlöndum er skipt upp í Small cap, Mid cap og Large cap markað og svo er Nasdaq First North (FN) fyrir vaxtarfyrirtæki. Hvert land hefur fyrirtæki á hverjum lista. First North hentar fyrirtækjum sem eru að jafnaði óþroskaðri en fyrirtæki á aðalmarkaðinum. Bæði eru skyldur First North fyrirtækja ekki jafn miklar gagnvart kauphöll og kostnaður við skráningu lægri. Skráning ein og sér felur þó í sér jafn mikið aðhald fyrir stjórnendur og eigendur. Uppgjör og gagnsæi gagnvart markaði er alltaf til staðar. En Nasdaq og First North eru ekki einu hlutabréfamarkaðirnir. Í Svíþjóð eru fleiri valkostir, t.d. Aktietorget, Nordic Growth Market (NGM), beQuoted og Göteborgslistan. Fyrir flestum Íslendingum eru þetta framandi markaðir.

Það er merkilegt að skoða hvernig fyrirtæki á Norðurlöndunum nýta sér skráningu. Viðhorf og hefðir til hlutabréfamarkaða endurspeglast vel í þeim tölum. Skoðaðar vorur tölur fyrir FN, Aktietorget og NGM.

fjöldi_a_markadi
Fjöldi fyrirtækja á minni hlutabréfamörkuðum á Norðurlöndunum. Heimild: Reuters / Nasdaq

Enn merkilegra er að horfa til þroskastigs fyrirtækjanna. Þannig er hægt að skoða ýmist markaðsvirði, tekjur og EBIT.

mc_distr

Við þá skoðun kemur í ljós að 36% félaganna er með markaðsvirði allt að 10 milljónir dollara (MUSD) og 75% þeirra er með markaðsvirði allt að 50 MUSD.

rev_distr_firstnorth
Tekjudreifing fyrirtækja á First North, Aktietorget og NGM. Ekki eru til aðgengileg gögn fyrir 28% fyrirtækjanna. Heimild: Reuters / Bloomberg

Þegar kemur að tekjum síðastliðinna 12 mánaða sést að 50% fyrirtækjanna er með tekjur undir 10 MUSD. Enn áhugaverðara er að skoða dreifingu EBIT yfir öll fyrirtæki.

ebit_distr
Dreifing EBIT fyrirtækja á First North, Aktietorget og NGM. Ekki eru til aðgengileg gögn fyrir 30% fyrirtækjanna. Heimild: Reuters / Bloomberg

Þar sjáum við að dreifingin á síðastliðnum 12 mánuðum er margvísleg, allt frá því að vera frá -8 MUSD til um 10 MUSD. Með öðrum orðum, þessi fyrirtæki eru ekki endilega sjóðstreymisfyrirtæki, heldur fyrirtæki sem stunda þróun af margvíslegum toga og eru ekki endilega byrjuð að mynda tekjur eða eru á sínum fyrstu skrefum. Hagnaður fyrir fjármagnstekjur og skatt um helmings fyrirtækjanna er neikvæður síðastliðna 12 mánuði, sjá frekara niðurbrot í töflu. (Í gagnagrunnum Reuters og Bloomberg eru EBIT tölur fyrir öll fyrirtækin á viðkomandi mörkuðum ekki aðgengileg)

ebit_dreif
Dreifing EBIT fyrirtækja á First North, Aktietorget og NGM. Heimild Reuters / Bloomberg.

Sjálfur bjó ég í Svíþjóð í fimm ár og kynntist ólíkri afstöðu margra þar til hlutabréfamarkaða. Eitt sumarið vann ég í byggingageiranum í Stokkhólmi. Í kaffipásunni síðdegis voru þrjú atriði daglegur fasti hjá sænsku vinnufélögunum. Kaffi og kanilsnúður, munntóbak og uppfletting í dagblöðunum á verði hlutabréfa í eignasafni þeirra. Afstaða til hlutabréfakaupa er því um margt ólík því sem við eigum að venjast hér á landi. Að þessu sögðu eru reyndar stór fyrirtæki á íslenskan mælikvarða á þessum listum en um 24% þeirra eru með markaðsvirði á bilinu 50-1.000 MUSD.

Boðskapurinn er sá að fyrir stofnendur lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Íslandi getur skráning á markað verið raunhæfur kostur, einkum ef fyrirtækin bjóða eða hyggjast bjóða vörur og þjónustu alþjóðlega. Fyrir fjárfesta, hvort heldur einstaklinga eða fagfjárfesta, væri meiri breidd í eðli fyrirtækja á markaði mikill kostur. Við getum vel lært af reynslu frændfólks okkar á Norðurlöndunum þar sem hlutabréfakaup eru raunverulegt sparnaðarform til lengri tíma. Við þurfum einfaldlega fleiri og ólík fyrirtæki á markað.

Greinin birtist fyrst í styttri útgáfu í Viðskiptablaðinu þann 23. nóvember 2017

Leave a Reply

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s