Startup Reykjavik fyrirtæki á markað

Í liðinni viku gerðist ánægjulegur viðburður fyrir Startup Reykjavik. Fyrirtækið Klappir Grænar Lausnir var skráð á First North markaðinn. Samhengið er það að árið 2015 tók fyrirtækið Datadrive þátt í viðskiptahraðlinum Startup Reykjavik. Rúmu ári síðar keypti fyrirtæki Jóns Ágústs Þorsteinssonar, Klappir Grænar Lausnir (KGS), Datadrive. Kaupverðið var að hluta til greitt í reiðufé og að hluta með bréfum í KGS. Við það varð Startup Reykjavik Invest hluthafi í KGS. Startup Reykjavik Invest ehf. er dótturfyrirtæki Arion banka og fara allar fjárfestingar í þátttökufyrirtækjum Startup Reykjavik í gegnum það félag.

Klappir_Nasdaq.jpg
Mynd frá Nasdaq í New York fimmtudaginn 21. september 2017.

Skráning á markað er draumur fjárfestisins

Fyrir fjárfesti í sprotafyrirtækjum eru nokkrar leiðir til að öðlast útgöngu (e. exit). Á Íslandi er algengasta leiðin að annað fyrirtæki kaupi sprotafyrirtækið í heilu lagi eða kaupi reksturinn. Nýleg dæmi um slíkt eru kaup Qlik á Datamarket, kaup Autodesk á Modio og kaup NetApp á Green Qloud. Önnur leið er að framtaksfjárfestingasjóður (venture capital eða private equity) kaupi fyrirtæki í heilu lagi með það að markmiði að efla reksturinn og selja það svo áfram til leiðandi fyrirtækis í sambærilegum geira. Slíkt fyrirkomulag er mun sjaldgæfara á Íslandi fyrir sprotafyrirtæki, enda hentar það betur fyrir þroskaðri fyrirtæki. Íslensk dæmi eru kaup fjárfestingasjóða SÍA í rekstri Stefnis á hlut í Kynnisferðum, fjárfestingasjóðsins Horns í rekstri Landsbréfa á helmingshlut í Líflandi og Akurs í rekstri Íslandssjóða á stórum hlut í Gray Line. Þriðja leiðin er hins vegar óhefðbundnari en um margt áhugaverðari. Leiðin er að skrá félagið á markað og þá leið fór KGS. Fyrir bæði stofnendur og fjárfesta í fyrirtæki er skráning á markað góð leið til þess að fá verð fyrir sína eign. Markaðurinn sér einfaldlega um að kaup og sala hluta sé á “réttu” verði. Verð er auðvitað eitthvað sem kaupandi er tilbúinn að greiða en ekki bara það sem seljandinn vill selja á. Fjárfestir í sprotafyrirtækinu hefur þannig góðan möguleika á að selja sinn hlut þegar hann kýs. Þeir sem fjárfesta í sprotafyrirtækjum, hvort heldur einstaklingar, fyrirtæki eða sjóðir, þekkja vel að slík fjárfesting tekur að jafnaði nokkur ár að skila sér á meðan fyrirtækið vinnur í að vaxa og styrkja sinn rekstur. Á meðan eru fjármunir fjárfestanna læstir inni í félaginu, þ.e. að fjárfestirinn hefur hvorki fengið verðmyndun á fjármagnið né kost á að losa það með auðveldum hætti. Sú ákvörðun fjárfestanna er eðlilega upplýst. Í því felst eðli engla- og venture capital fjárfesta. Starf fjárfestanna, a.m.k. þeirra stærstu, felst í að móta og aðstoða við uppbyggingu félagsins í gegnum stjórnarsetu.

JAÞ_Klappir
Jón Ágúst Þorsteinsson, forstjóri Klappa Grænna Lausna, hringir inn félagið á Nasdaq First North.

Skráning á markað styttir þannig leiðina fyrir alla hluthafa í fyrirtæki að verðmyndun og fjármunamyndun. Í tilfelli Datadrive sem þátttakanda í Startup Reykjavik árið 2015, er þetta óvenju stuttur tími í leið að verðmyndun, jafnvel í alþjóðlegu samhengi.

GAN (Global Accelerator Network)

Sjálfur er ég nýkominn af ráðstefnu GAN, sem er alþjóðlegt netverk viðskiptahraðla sem Startup Reykjavik er hluti af. Þar hittust fjárfestar og stjórnendur viðskiptahraðlanna í netverkinu að deila reynslusögum, sameiginlegum vandamálum o.s.frv. Ég deildi þessari sögu að Startup Reykjavik væri að fá sína fyrstu raunverulegu útgöngu með skráningu eins fyrirtækis. Yfir 5.200 sprotafyrirtæki hafa farið í gegnum hraðla sem eru hluti af GAN frá 2012. Það sem kom mér ánægjulega á óvart er að KGS / Datadrive er einungis þriðja fyrirtækið sem er skráð á markað í öllu netverkinu frá upphafi. Nær allir hraðlarnir fjárfesta í fyrirtækjum á fyrstu stigum rekstrar, líkt og Startup Reykjavik gerir. Þessi niðurstaða segir okkur um góða stöðu Startup Reykjavik á alþjóðlegan mælikvarða en líka hversu erfitt það getur verið að fá útgöngu á sprotastigi. Það þekkja allir venture capital sjóðir. Aðgangur að fjármagni er að vísu minni á Íslandi heldur en mörgum stöðum erlendis, en meðalfyrirtækið í hraðli sem hefur farið í gegnum hraðal í GAN er með 7 starfsmenn og hefur safnað um USD 435.000 eða tæpum 50 milljónum króna frá fjárfestum.

Arion-Dagatal-Datadrive-0653-3
Stofnendur Datadrive, sem tók þátt í Startup Reykjavik árið 2015

First North er raunverulegur kostur

Að skrá fyrirtæki á markað hefur ekki tíðkast á Íslandi fyrir fyrirtæki sem eru á sínum fyrstu skrefum. Flest skráð fyrirtæki eru þroskuð. Hvorki fjárfestar né aðrir eigendur frumkvöðlafyrirtækja hafa ekki litið á skráningu sem raunhæfan kost hingað til. Það er miður, þar sem hefðin á t.d. Norðurlöndunum fyrir skráningu fyrirtækja sem ýmist eru með takmarkaðar tekjur og/eða ekki með jákvætt sjóðstreymi er nokkuð sterk. Ég mun taka saman þau gögn og fjalla um síðar. Helstu kostir þess að skrá fyrirtæki eru:

  1. Hluthafar fá verðmyndun á eign sína í fyrirtækinu
  2. Skráning er aðhald á fyrirtækið hvað fjárhags- og rekstrarlegar upplýsingar varðar gagnvart markaðinum
  3. Hluthafar geta selt hluti í fyrirtækinu að vild þegar þeim hentar
  4. Fyrirtæki fá athygli frá alþjóðlegum fjárfestum bara við það eitt að vera skráð.

Einhverjir kunna að segja að bæði kostnaður við skráningu og upplýsingaskyldan geti verið byrði á fyrirtæki. Skráning á First North er hins vegar allt annar pakki heldur en t.d. skráning á aðallistann. Bæði er kostnaður mun minni þar sem aðgangur að kauphöll kostar minna og upplýsingaskyldan er ekki jafn stíf og á aðallistanum. Ég vil því hvetja íslensk fyrirtæki og eigendur þeirra að skoða skráningu á First North sem raunverulegan valkost fyrir sín fyrirtæki.

En meira um tölfræði fyrirtækja á First North og minni kauphöllunum á Norðurlöndunum síðar.

 

Leave a Reply

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s