Fjárfesting Arion banka í nýsköpun er margvísleg

Frá árinu 2012 hefur Arion banki fjárfest í 80 sprotafyrirtækjum í gegnum viðskiptahraðlana Startup Reykjavik (SR) og Startup Energy Reykjavik (SER). Það gefur auga leið að slíkt fyrirkomulag er vel til þess fallið að styrkja innviði nýsköpunar á Íslandi enda fær hvert fyrirtæki nýtt hlutafé og mikinn stuðning við mótun fyrirtækisins. Þessi fyrirtæki hafa svo aflað sér nýs hlutafjár frá öðrum fjárfestum upp á rúma 2 milljarða kr. og fengið styrki, að mestu leyti frá Tækniþróunarsjóði, upp á einn milljarð króna. Mörg fyrirtækjanna eru nú þegar byrjuð að afla sér tekna.

Í síðustu viku lauk Startup Reykjavik í sjötta sinn. Eitt mesta virðið í hraðlinum er hlutverk þeirra ráðgjafa eða mentora sem gefa vinnu sína við að rýna viðskiptahugmyndir fyrirtækjanna og opna á sitt tengslanet. Fyrirtækjunum er einnig uppálagt að aðlaga sínar hugmyndir fljótt og vel skv. hugmyndafræði „Lean Startup“, þ.e. að opna og kynna vöru/þjónustu eins fljótt og auðið er með það að markmiði að fá viðbrögð frá viðskiptavinum og að fínstilla vöruna eftir þeim ábendingum sem berast. Þannig er oft rætt um að á upphafsstigum reksturs og í vöruþróunarferlinu sé ákjósanlegt að mistakast fljótt og snemma í stað þess að þróa vöruna of lengi án þess að fá sjónarmið viðskiptavina. Slíkt sé betra til lengri tíma.

Nýsköpun starfsfólks

Lean Startup aðferðafræðin nýtist ekki síður stærri fyrirtækjum en minni. Arion banki þekkir það vel. Reynslan af Startup Reykjavik fyrstu þrjú árin leiddi til þess að Arion banki ákvað að vorið 2015 skyldi bankinn halda sinn eigin viðskiptahraðal, Startup Arion. Markmiðið var að virkja hugmyndaauðgi starfsfólks í að búa til nýjar vörur / þjónustu fyrir viðskiptavini. Auglýst var eftir hugmyndum frá starfsfólki og valdar voru 5 hugmyndir til þátttöku. Teymin skyldu þannig samsett að þau yrðu fullkomlega sjálfbær um þróun og framleiðslu hugmyndanna, hvort heldur út frá tæknilegri, lögfræðilegri eða viðskiptalegri hlið. Flest teymin töldu fjóra einstaklinga. Startup Arion stóð yfir í fimm vikur á efri hæð útibús á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. ekki í rými sem fólk starfar að jafnaði í. Teymin fengu í heildina 12 vinnudaga á tímabilinu til þess að koma með lágmarksvöru (minimum viable product). Verkefninu lauk með kynningu teymanna á sínum vörum fyrir framkvæmdastjórn og öllu starfsfólki bankans. Skemmst er frá því að segja að tvær hugmyndanna hafa nú þegar verið framkvæmdar. Sú fyrri er rafræn leið til að koma í viðskipti með tilstilli rafrænna skilríkja (customer onboarding) og sú seinni er vefgátt (API) sem var nýtt í forritunarkeppninni FinTech partý Arion banka. Í keppninni höfðu þátttakendur kost á því að tengjast innviðum bankans, þó einungis með sýndargögn, og forrita lausnir á móti honum. Margar nýjar og áhugaverðar lausnir litu þar dagsins ljós.

Um mitt ár 2016 urðu svo miklar breytingar á tilhögun þróunar rafrænnar fjármálaþjónustu hjá Arion banka. Samhliða því að sinna rekstri tölvukerfa og almennu viðhaldi að þá keyrir bankinn valin og afmörkuð verkefni líkt og startup fyrirtæki. Hvert verkefni eða sprettur stendur yfir í 16 vikur og er teymið í verkefninu sjálfbært um alla þróun og innleiðingu. Starfseiningin, sem staðsett er á UT sviði, hefur ákveðinn kjarna starfsfólks en fyrir hvert verkefni er kallað til starfsfólk bankans af mismunandi sviðum, sem hefur hvert og eitt tiltekið sérsvið. Þannig er tryggt að sérþekking starfsfólks njóti sín í hverju og einu verkefni. Þeir einstaklingar sem ekki tilheyra kjarnahópnum yfirgefa sitt daglega starf í þær 16 vikur sem verkefnið stendur yfir og gera ekkert annað en að sinna því. Að því loknu hefst nýtt verkefni með nýju fólki. Fyrri þátttakendur hverfa þá til sinna daglegu starfa og taka með sér nýja þekkingu, vinnubrögð og reynslu frá verkefninu sem smitast smátt og smátt inn í daglegan rekstur. Í daglegu tali kallast starfseiningin innan bankans Stafræn framtíð.

Tækniframfarir í fjármálaþjónustu

Afrakstur Stafrænnar framtíðar sést bæði í bættri þjónustu og auknu hagræði. Að fyrirtæki geti orðið viðskiptavinur banka á innan við fimm mínútum er bylting miðað við fyrri feril. Að viðskiptavinur geti sjálfur skipt kreditkortareikningi eða sjálfur stýrt t.d. yfirdráttarheimild, fryst og opnað kreditkort í gegnum app er umtalsvert betri og þægilegri bankaþjónusta svo dæmi séu tekin. Breytingar í fjármálaþjónustu eiga eftir að verða miklar á næstu misserum, bæði sökum reglugerðabreytinga en ekki síður tækniframfara. Arion banki er vel í stakk búinn til þess að mæta þessum breytingum þar sem innviðir og vinnulag er nú þegar að miklu leyti aðlagað að því að geta sinnt stórum breytingum í bæði innra og ytra umhverfi.

Fjárfesting í innri og ytri nýsköpun helst í hendur. Arion banki var brautryðjandi í því að koma á legg viðskiptahröðlum fyrir íslenskt frumkvöðlaumhverfi. Startup Reykjavik og Startup Energy Reykjavik hafa reynst umhverfinu vel. Dæmi og reynslusögur frumkvöðla bera þess vitni. Að sama skapi hefur Arion banki innleitt hugmyndafræði „Lean startup“ í vöruþróun. Bankinn sinnir því nýsköpun á breiðu sviði með stuðning í verki og bætta fjármálaþjónustu að leiðarljósi.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 24. ágúst 2017

Leave a Reply

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s