Menntakerfið sem undirbýr okkur ekki fyrir komandi samfélagsbreytingar

Í fyrri pistli gerð ég grein fyrir sýn minni um þær miklu samfélagsbreytingar sem munu eiga sér stað á næstu 15-30 árum í heiminum. Í stuttu máli fjallaði greinin um hvernig áður óséður hraði í tækniþróun mun hafa áhrif á störf. Ákveðin störf munu hverfa en önnur koma í staðinn.

Ég velti því fyrir mér hvernig heimurinn, Ísland þar með talið, er undirbúið fyrir þessar breytingar. Sannarlega mun þróunin taka mið af þeirri þekkingu sem er aðgengileg hverju sinni. Tæknin er hins vegar þess eðlis að fáir einstaklingar og fyrirtæki geta haft stórkostleg áhrif fyrir tilstilli tækninnar og internetsins sem dreifileiðar. Spurningin er því: Hvernig getur Ísland sem þjóð verið virkur þátttakandi í þessum breytingum?

Þekkingarsköpun fer fram í skólakerfinu og fyrirtækjum. Í stórum dráttum er skólakerfið undanfari hennar í fyrirtækjum. Þekkingarmyndun á Íslandi er hins vegar í ákveðinni hættu, sérstaklega ef við horfum á stóru myndina og berum okkur saman við önnur lönd.

Ísland er með lægra menntunarhlutfall en æskilegt er

Einungis 33% Íslendinga  á aldrinum 25-64 ára hafa lokið framhaldsskólaprófi og 25% hafa lokið háskólaprófi (diploma eða BA/BS). Við erum talsverðir eftirbátar OECD landa hvað varðar útskrift úr framhaldsskóla (40%) en erum rétt yfir meðaltali hvað háskólamenntun varðar (24%).  Stóra áhyggjuefnið er klárlega brottfall úr framhaldsskólum. Eitt rétt skref, að mínu mati, var að stytta námið í 3 ár. Samhliða því þarf að sinna fjölbreyttum þörfum þeirra sem hefja framhaldsskóla, því eitthvað er augljóslega ekki að virka. Sérstakar áhyggjur hef ég af körlum, bæði á framhaldsskóla- og háskólastigi, en hlutfall þeirra er talsvert hærra en kvenna sem lýkur ekki námi, brottfall íslenskra karla er rúmlega 30%* í framhaldsskóla– og 59% í háskólanámi. Þjóðfélagslegum áhrifum mikils brottfalls nemenda þarf vart að lýsa. Ein skýrsla segir kostnað samfélagsins við einn brottfallinn nemenda úr framhaldsskóla nema 14 milljónum.

Einungis 54% Íslendinga sem hefja háskólanám ljúka því. Við erum rétt fyrir ofan meðaltal OECD landa. Er það ásættanlegt?

*Erfitt er að nálgast nýlegar brottfallstölur, en fyrir um 14 árum var hlutfallið rúmlega 30%. Ég geri hér ráð fyrir að hlutfallið hafi staðið í stað.

Framlög til menntamála hafa stórlega dregist saman

Ísland leggur aukinheldur lægra fjármagn hlutfallslega í háskólamenntun heldur en þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við. Sýnu verra er að það fjármagn hefur farið minnkandi. Ekkert OECD land að Ungverjalandi undanskildu hefur minnkað hlutfallslega fjárfestingu í háskólanámi jafn mikið og Ísland.

oecd

Ég bjó í Svíþjóð í fimm ár. Mér þótti undravert að upplifa þar forgangsröðun stjórnvalda til náms. Þar var hugsað 15-20 ár (4-5 kjörtímabil) fram í tímann. Menntakerfið þar er rétt tæplega 100% fjármagnað af ríkinu og skólagjöld lítil sem engin. Þó eru gerðar miklar kröfur til þeirra nemenda sem komast inn í háskóla og er þar miðað við einkunnir úr samræmdum prófum úr menntaskóla. Bestu / vinsælustu háskólarnir velja nemendur með hæstu einkunnirnar og ekki allir komast inn þangað sem þeir kjósa helst. Einungis um 70% þeirra sem sækja um háskólanám komast í námið (bls. 29 í skýrslu UHR). Nemendur flytja gjarnan landshorna á milli til að komast í það nám sem þau kjósa helst. Það sem mér fannst þó einstakt var hvernig ríkið forgangsraðar (og þar með aðgangsstýrir að hluta) námi og námsaðgengi. Sjái ríkið fram á skort af sálfræðingum eftir 15 ár, er fleirum hleypt í það nám. Ef offramboð er af verkfræðingum er skrúfað meira fyrir aðganginn. Með öðrum orðum, ekki hver sem er getur gert hvað sem er þegar kemur að námsvali. Niðurstaðan er mikil samkeppni milli háskóla um bestu nemendurna og jafnvægi í aðgangi atvinnulífsins og hins opinbera að færu starfsfólki á hverjum tíma. Ég er hlynntur sem mestu frjálsræði fyrir þegna hvers lands. Ég kann líka að meta stefnumörkun hins opinbera í framkvæmd sem virkar. Ef hið opinbera væri framsýnna, líkt og ég upplifði í Svíþjóð, hefði Ísland tækifæri á að vera a.m.k. á öldunni (ekki einu sinni á undan henni) en ekki siglandi í kjölfarinu þegar kemur að framleiða hæft starfsfólk til framtíðar, þ.e. að undirbúa samfélagið fyrir komandi breytingar. Að vera á undan kúrfunni, en ekki bregðast við ef / og þegar tiltekna hæfileika skortir í atvinnulífinu.

Tvennt þarf: Meiri fjármögnun og stefnumótun sem virkar í framkvæmd

Til eflingar þarf tvennt. Annars vegar kröftugri fjármögnun hins opinbera, en þar hafa stjórnvöld því miður staðið sig illa sl. ár eins og ofangreind mynd frá OECD ber með sér. Aðstæður hafa verið óvenjulegar í íslensku efnahagskerfi, það þekkja allir. Stjórnvöld þurfa jú að forgangsraða, því ekki er hægt að gera allt. Hér þarf einfaldlega að huga að því að miklar samfélagsbreytingar munu eiga sér stað á næstu 20 árum fyrir tilstilli tækniframþróunar. Til að Ísland verði enn samkeppnishæfara í alþjóðlegu samhengi þarf markvissa stefnumörkun og hrinda henni í framkvæmd af hálfu hins opinbera. Það er hitt atriðið sem stjórnvöld þurfa að hysja upp um sig buxurnar með.

internet-de-las-cosas-telefonica

Átta stjórnvöld sig á þeim samfélagsbreytingum sem framundan eru? Ef svo, hvernig kjósa þau að styrkja og efla þá þekkingu sem framtíðarstarfsfólk þarf yfir að búa? Viljum við byggja hagkerfið upp af útflutningi orku í formi málma og þjónustustörfum fyrir? Báðir geirar eru „low margin“ geirar, þ.e. verðmætin sem sitja eftir þegar búið er að greiða allan kostnað, eru takmörkuð. Sjávarútvegurinn er eins og hann er, auðlindin er takmörkuð, framlegðin mikil, en situr ekki eftir hjá landsmönnum, nema að takmörkuðu leyti. Allir þrír geirar eiga það líka sameiginlegt að vera ekki mjög skalanlegir. Með því á ég við að til að auka tekjur þarf að kosta talsverðu til. Kostnaður eykst bara aðeins minna sem nemur tekjunum. Alþjóðageirinn er að jafnaði öðrum kostum búinn. Fyrirtæki eru allflest afar skalanleg, þar sem kostnaður við framleiddan hugbúnað er nánast sá sami hvort heldur selt er eitt eintak eða tíu þúsund. Ég er auðvitað meðvitaður um að þessi framsetning er einföld, en ég set þetta svona fram til að sýna möguleikana sem alþjóðageirinn hefur fyrir íslensk fyrirtæki.

  • Hvernig sjá stjórnvöld fyrir sér að mennta Íslendinga á næstu áratugum með þarfir alþjóðasamfélagsins að leiðarljósi?
  • Hvernig vilja stjórnvöld bjóða erlenda sérfræðinga velkomna að starfa hér og búa til og skilja eftir þekkingu á tilteknum sviðum?
  • Telja stjórnvöld sig yfir höfuð geta haft áhrif á hvert Ísland stefnir í framlagi þekkingar og aukinna viðskipta í alþjóðasamfélaginu?
  • Eða horfa stjórnvöld svo á að Ísland sé á góðri leið og lítið þurfi að bæta?

Eitt er alltént ljóst. Framlag hins opinbera til háskólasamfélagsins þarf að auka. Án menntaðrar þjóðar sem stendur sig vel í alþjóðlegri samkeppni, menntalega frá vísindalegu sjónarhorni, samkeppnislega séð út frá vinnuafli og kröftugum fyrirtækjum og þjóðfélagslega út frá lífsgæðum, verður erfitt að byggja upp samfélag sem heldur áfram að vaxa í gæðum í alþjóðlegum samanburði. Allar þjóðir heimsins glíma við þessar áskoranir. Það er þó mitt mat að til lengri tíma höfum við margt til að geta staðið okkur hlutfallslega betur til lengri tíma en þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við. Fjármagn, stefnumörkum og geta til innleiðingar er það sem þarf.

Menntuð samfélög standa sig best í flestu samhengi, hvort heldur það eru efnahagslegir eða félagslegir mælikvarðar sem nýttir eru til samanburðar. Ísland er vant því að (og vill gjarnan) sjá nafn sitt ofarlega á lista um það sem skiptir það máli. Þess vegna er tiltölulega lágt menntunarhlutfall og hátt brottfall úr námi Íslendinga á framhaldsskóla- og háskólastigi mikið áhyggjuefni.

teacher

Það er kominn tími á að stjórnvöld forgangsraði til framtíðar. Af einskærum ásetningi. Mér finnst neikvæði samanburðurinn við OECD sláandi. Mér finnst líka forgangsröðun á borð við Svíþjóðar afskaplega áhugaverð og til fyrirmyndar. Samkeppnishæft, opinbert (há)skólakerfi með langtímasýn á þarfir atvinnulífs og þjóðar.

Ég óska þess að við sem þjóð berum gæfu til þess að kjósa yfir okkur einstaklinga og stjórnmálaflokka sem raunverulega skilja í hverju hagsmunir þjóðarinnar til lengri tíma snúast um.

Í næsta pistli mun ég svo beina sjónum mínum að alþjóðageiranum.

Leave a Reply

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s