Kostir og gallar viðskiptahraðla

Í fjögur ár hefur viðskiptahraðallinn Startup Reykjavík verið haldið úti af Arion banka og Icelandic Startups. Fjörutíu fyrirtæki hafa farið í gegnum hraðalinn. Umsóknarfrestur fyrir Startup Reykjavík 2016 er 31. mars nk.

Í samtölum við frumkvöðla fæ ég gjarnan spurninguna: Af hverju á ég að taka þátt í Startup Reykjavík? Hvað fæ ég umfram það að keyra hugmyndina sjálf(ur) áfram með teyminu mínu með þátttöku? Ég skal varpa ljósi á nokkur atriði, bæði kosti og galla þess að taka þátt í viðskiptahraðli. Það er mikilvægt að átta sig á því að engir tveir hraðlar í heiminum eru eins. Sumir einblína á ákveðinn geira (e. vertical) á meðan aðrir eru almennari.

Langflestir viðskiptahraðlar sem t.a.m. Startup Reykjavík og Startup Energy Reykjavík bera sig saman við hafa svipaðar forsendur og skilyrði fyrir þátttöku. Þau eru m.a.:

 • Fjármagn á bilinu 1-8 mkr gegn 4-10% eignarhaldi viðskiptahraðalsins / fjárfestanna
 • Hluthafasamkomulag sem tekur á hugverkaréttindum, minni- og meirihlutavernd hluthafa (e. drag og tag ákvæði).
 • Ýmis konar hlunnindi, t.a.m. afsláttur af hinni og þessari þjónustu sem geta verið mikilvæg þátttakendum
 • Aðgangur að mentorum og fjárfestum

Til samanburðar má skoða hraðla í Global Accelerator Network en þeir hraðlar eru í 6 heimsálfum. Nánar um þátttökuforsendur Startup Reykjavík.

Aðgangur að viðbótarfjármagni

Langflestir viðskiptahraðlar halda Demo Day, en þar kynna teymin afrakstur vinnu sinnar í viðskiptahraðlinum fyrir gestum og fjárfestum. Fjárfestar kynnast þannig fyrirtækjunum og mynda gjarnan e-s konar samband við þau sem stundum leiðir til fjármögnunar fyrirtækjanna.

Ég er oft spurður að því af hverju Startup Reykjavík bjóði ekki upp á breytanlegt skuldabréf (lán sem hægt er að breyta í hlutafé á síðari stigum), slíkt sé svo algengt í erlendum viðskiptahröðlum. Staðreyndin er einfaldlega sú að það er ekki jafn algengt og gefið er til kynna hér á landi. Oftast er vísað í YCombinator, Techstars og 500Startups í þessu samhengi og að þannig sé best að gera þetta. Til að byrja með eru þessir viðskiptahraðlar þeir virtustu í heimi og hafa náð góðum árangri með nokkur af sínum fyrirtækjum. Nægir að nefna Dropbox og AirBnB í því samhengi. Meirihluti hraðla býður hins vegar ekki upp á fjármögnun við lok hvers “árgangs” (e. cohort) þó svo það fyrirkomulag fyrirfinnist. Þessu er mikilvægt að halda til haga. Í öðru lagi starfa þessir hraðlar á markaðssvæði sem þekkir engla-og framtaksfjárfestingar mun betur en gerist á Íslandi og meiri hefð er fyrir þar.

Startup Reykjavik Invest, dótturfyrirtæki Arion banka og fjárfestirinn í Startup Reykjavik, hefur í nokkrum tilfellum boðið þátttakendum breytanlegt skuldabréf sem þau hafa þegið. Slíkt er þó undantekning en ekki regla.

Staðreyndin er þó líka sú að t.d. í Bandaríkjunum glíma hraðlar sem ekki eru á vinsælum sprotasvæðum á við Kaliforníu og New York við svipuð vandamál og á Íslandi, s.s. áhættufælni fjárfesta gagnvart sprotum, erfiðleika við að finna hóp fjárfesta sem fylkir sér á bak við hraðal, aðgengi að mörkuðum o.s.frv. College Station í Texas er ekki sama menningar- eða fjármagnssvæði og Silicon Valley og Salt Lake City er ekki hið sama og New York.

Eftir stendur að Demo Day (lokadagurinn) ásamt fundum sem fjárfestar hafa átt með teymunum á meðan hraðlinum stendur eru og verða áhrifaríkustu stundirnar til að mynda samband milli teyma og fjárfesta. Bendi áhugasömum á lokakynningar allra ára á YouTube.

En aftur að viðfangsefni pistilsins.

0085
Frá Demo Day í Startup Reykjavík en kynningarnar eru haldnar í höfuðstöðvum Arion banka í Borgartúni.

Kostir viðskiptahraðla

 1. Fjármagn til að koma þér af stað. Fjármagn á fyrstu stigum skiptir máli til að stofnendur geti einbeitt sér að mótun viðskiptamódelsins. Þó svo fjármagnið sé að jafnaði takmarkað gefur það svigrúm til að taka fyrstu skrefin. Oft eru þetta “bara” hugmyndir þó allur gangur sé á því. Með þessari fyrstu fjárfestingu er búið að verðmeta fyrirtækið eða hugmyndina. Í tilfelli Startup Reykjavík er verðmatið 40 mkr miðað við 6% eignarhlut fyrir 2,4 mkr.
 2. Leiðsögn reyndra einstaklinga úr atvinnulífi og háskólasamfélagi, fjárfesta og frumkvöðla. Að eiga ein(n)-á-ein(n) fundi með einstaklingum sem hafa einhverja sérþekkingu á sviði viðskiptatækifærisins er mikils virði. Mentorar koma að hitta fyrirtækin í þeim eina tilgangi að aðstoða við að rýna hugmyndina til gagns og opna á sitt tengslanet. Oft gerist það að persónulegt samband myndast milli mentors og teymis sem varir lengur en prógrammið. Þessar tengingar reynast frumkvöðlum yfirleitt ómetanlegar, hvort heldur faglega eða persónulega.
 3. Fyrsti fjárfestir sem skilur hvað langtímafjárfesting snýst um og að það tekur tíma að byggja upp árangursríkt fyrirtæki. Fjárfestar í viðskiptahröðlum reyna að velja inn bestu teymin sem þeir meta að séu líklegastir til að hrinda hugmyndinni í framkvæmd og gera að lífvænlegum rekstri. Þessir fjárfestar vita allir að uppbygging fyrirtækis tekur tíma en vilja samhliða styðja við fyrirtækin í sinni portfólíu, t.d. með því að veita aðgang að sínu tengslaneti sem geta verið fyrirtæki í rekstri (lesist framtíðar viðskiptavinir) eða fjárfestar.
 4. Athygli fjárfesta á lokadeginum (Demo Day). Á meðan hraðlinum stendur er athyglin öll á þátttakendateymin. Hámarkinu er náð með lokakynningunum þar sem fjárfestar og aðrir gestir fá að sjá hverju hefur verið áorkað í hraðlinum. Mýmörg dæmi eru um að fyrsta samband teymis og fjárfestis eigi sér stað á Demo Day. Fjárfestar skrifa ekki endilega ávísun í lok dagsins, heldur bóka fund í kjölfarið til þess að kynnast fyrirtækjunum betur.
 5. Í umsóknarferli eru bestu teymin valin til þátttöku. Bæði verða öll teymi hluti af ákveðnu samfélagi og læra mikið af hvert öðru á meðan prógrammið stendur yfir (e. Network effect). Að verða hluti af hópi fólks sem brennur fyrir að byggja upp sitt eigið viðskiptatækifæri hefur margföldunaráhrif. Fólk deilir hæðum og lægðum, sigrum og mistökum. Teymin keppast ekki endilega bara við sjálf sig, heldur myndast oft stemning sem verður hvetjandi fyrir alla þátttakendur. Vinasambönd myndast gjarnan sem halda áfram langt út fyrir hraðalinn. Sem “alumni” fá fyrirtækin líka áframhaldandi stuðning frá hraðlinum í formi ráðgjafar og almenns stuðnings.
7DM_9717_raw_0362
Unnið hörðum höndum í Startup Reykjavík sumarið 2015.

Gallar viðskiptahraðla

 1. Fjárfestar eignast hlut í fyrirtækinu. Mögulega er stofnendum illa við að gefa eftir hlut í fyrirtækinu á sínum fyrstu stigum vegna þátttöku í viðskiptahraðli sem varir aðeins í nokkra mánuði. Flestir sem fara þó í gegnum viðskiptahraðal meta þó tengslanetið og reynsluna sem ómetanlega og þannig sem mótvægi við eignarhlutinn.
 2. Network / samfélag hentar ekki þínu fyrirtæki. Flestir viðskiptahraðlar leggja áherslu á að þátttakendur sæki sér fjármagn fljótlega eftir hraðalinn. Það þarf ekki endilega að henta öllum fyrirtækjum. Sumum hentar einfaldlega að “bootstrappa”, þ.e. að leyfa fyrirtækinu að vaxa með sjálfbærum hætti.
 3. Þátttaka tryggir ekki árangur. Ef væntingar þátttakenda eru að fyrirtækið muni fá fjármögnun eða að það verði að fullu orðið sjálfbært í lok hraðalsins þarf líklegast betri væntingastjórnun. Að byggja upp rekstur tekur alltaf tíma. Markmið viðskiptahraðals er að flýta því ferli á fyrstu stigunum. Enginn viðskiptahraðall í heiminum getur tryggt árangur en allir þeir sem koma að honum eru reiðubúnir að aðstoða sem mest þeir mega til að þátttakendur forðist mistök sem aðrir hafa gert og komi með eitthvað virði að borðinu fyrir hvert og eitt fyrirtæki.
 4. Skyldumæting á viðburði í hraðlinum. Viðskiptahraðlar haga sinni dagskrá hver með sínum hætti. Í sumum er skyldumæting á þá viðburði eða fyrirlestra sem í boði eru, aðrir hafa frjálsa mætingu eftir þörfum. Í Startup Reykjavík höfum við farið bil beggja, þar sem að ákveðnir fyrirlestrar eru skylda þar sem þeir eiga erindi við öll fyrirtæki (s.s. um fjármál, hluthafasamkomulög, sölu- og dreifileiðir), en aðrir eru valkostur fyrir þá sem hafa áhuga á viðfangsefninu.

Viðskiptahraðlar, eins og hver önnur verkefni, hafa sína kosti og galla. Reynsla þeirra sem hafa farið í gegnum Startup Reykjavík sýnir þó að þátttakendur eru ánægðir með prógrammið. Nýtilkomnir fjárfestingasjóðir á Íslandi auka jafnframt líkurnar á því að fyrirtæki sem fara í gegnum hraðlana fái viðbótarfjármögnun á einhverju stigi.

Markmið viðskiptahraðals eins og Startup Reykjavík og Startup Energy Reykjavík er og verður alltaf að aðstoða frumkvöðla við að átta sig betur á hvaða vöru eða þjónustu ætti að byggja upp og fyrir hvaða markhóp auk þess að hvetja og aðstoða stofnendur til að sjá af hverju sá markhópur ætti að  nýta sér vöruna. Um leið og fyrirtækið hefur áttað sig á hverju fyrstu viðskiptavinirnir kaupa vöruna ítrekað breytist áherslan á að afla fleiri viðskiptavina sem nýta sér hana af sömu ástæðu og fyrsti hópurinn og ítra það ferli. Með öðrum orðum, fyrst þarf að skilja markaðinn. Vöxtur kemur í kjölfarið. Í þessari röð. Þannig verða startup fyrirtæki til.

7DM_9834_raw_0348
Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP Games á einum af opnum viðburðum Startup Reykjavík sumarið 2015.

 

EskiTech kynnir á Demo Day í Startup Reykjavik árið 2012
EskiTech kynnir á Demo Day í Startup Reykjavik árið 2012

 

 

Leave a Reply

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s