Opinn hugur einkennir sterka frumkvöðla

Upphaf viðskiptahraðla á Íslandi

Fram til ársins 2012 hafði fjölþættum stuðningi við frumkvöðlaumhverfið verið ábótavant á Íslandi. Ekki var til stuðningsnet fyrir frumkvöðlana sjálfa, fjöldi fjárfesta var takmarkaður og almenn þjónusta var hvorki sýnileg né aðgengileg fyrir þá sem vildu stofna fyrirtæki og vera hluti af alþjóðamarkaði. Að frumkvæði Arion banka var ákveðið að koma á fót viðskiptahraðli (business accelerator) sem myndi taka á þessum vandkvæðum. Í samstarfi við Icelandic Startups (áður Klak Innovit) varð því Startup Reykjavík til, sem hefur verið starfræktur síðan þá.

Viðskiptahraðall snýst í sinni einföldustu mynd um að hjálpa frumkvöðlum að gera meira hraðar með dyggum stuðningi. Þau tíu teymi sem valin eru til þátttöku hverju sinni fá sprotafjármagn (2 mkr) frá Arion gegn 6% eignarhlut. Það sem þó skiptir sennilega mestu máli er að á meðan verkefninu stendur hitta teymin fjöldann allan af „mentorum“, sem eru reyndir einstaklingar úr mennta- og atvinnulífinu. Þetta fólk kemur í Startup Reykjavík til að leiðbeina frumkvöðlunum, deilir með þeim reynslu sinni og opnar tengslanet sitt. Með þessu skipulagi fá frumkvöðlarnir ómetanlega aðstoð við að móta sínar viðskiptahugmyndir með skjótari hætti en ella. Verkefninu lýkur á hverju ári með því að fyrirtækin halda kynningu fyrir hóp fjárfesta með það að markmiði að fá inn nýja hluthafa sem aðstoða við að efla reksturinn. Í flestum tilfellum eru þetta fyrirtæki sem frá upphafi sjá meginþorra viðskipta sinna á alþjóðamarkaði fremur en einungis á heimamarkaði. Þegar þátttakendur eru spurðir í kjölfarið á Startup Reykjavík hvað hafi gert gæfumuninn fyrir þau, er svarið nánast undantekningalaust það hversu miklu þau komu í verk yfir þessar tíu vikur, og hversu miklu máli skipulag í kringum mentorafundina og praktísk ráð hafi skipt.

Startup Reykjavík hefur reynst árangursrík leið fyrir íslenska frumkvöðla til að stíga sín fyrstu skref. Viðskiptahraðallinn hefur tekið gríðarmiklum breytingum síðan 2012 til hins betra með auknu skipulagi, meiri áherslu á hvaða aðstoð teymin þurfa og hvernig við veitum hana. Það sem hefur hins vegar gert gæfumuninn er hvernig við, aðstandendur Startup Reykjavík, horfðum á annars vegar viðskiptahugmyndina og hins vegar fólkið að baki henni. Það hefur reynst mér mikilvægasta kennslustundin.

Val á teymum í viðskiptahraðal er margþætt

Þegar kemur að því að velja inn teymi í viðskiptahraðal eru margar breytur sem þarf að huga að. Til dæmis hvort viðskiptahugmyndin sé í lagi og rökrétt? Er markaðurinn nægilega stór? Hvaða leið ætlar teymið að fara að því að skapa eftirspurn? Er viðskipta- og tekjulíkanið líklegt til árangurs? Greiða viðskiptavinir skv. áskrift eða með kaupum í hvert og eitt sinn? Hversu auðvelt er að skala upp fyrirtækið? Til viðbótar við alls kyns rekstrarforsendur þarf líka að taka tillit til mannlegu þáttanna. Hafa stofnendur skýra sýn og eru þeir raunsæir í sínum áætlunum? Hvernig er teymið samsett? Ef um hugbúnaðarfyrirtæki er að ræða, er teymið bara tölvunarfræðingar, bara viðskiptaþenkjandi einstaklingar eða blanda? Þannig væri lengi hægt áfram að telja.

0305Í upphafi Startup Reykjavík árið 2012 lögðum við aðstandendur mestu áhersluna á þær vörur eða þjónustu sem teymin kynntu fyrir okkur við val á fyrirtækjum. Ytri þættir voru þannig meira áberandi í okkar forgangsröðun. Óhætt er að segja að það hafi verið mistök. En að gera mistök er ekki bara eðlilegt, heldur sennilega nauðsynlegt í öllum rekstri. Svo fremi að maður læri af þeim. Án mistaka er nefnilega ekki rými til betrumbóta. Það má ekki túlka þetta sem svo að teymin hafi verið undir meðallagi í upphafi, langt í frá, enda voru umsóknir í kringum 200 og úr mörgu góðu að velja. Það setur hins vegar tóninn hvort áhersla er lögð á hugmyndina eða fólkið. Eins klisjukennt og það kann að hljóma þá er hugmynd bara hugmynd og er einskis virði án framkvæmdar. Og það er fólk sem framkvæmir. Svo einfalt er það.

Hraðlar eru gæðamerki í augum fjárfesta

Fjárfestar hafa líka horft til viðskiptahraðlanna í auknum mæli. Þeir vita að fyrirtækin fá leiðbeiningu og hafa farið í gegnum ákveðna síu, bæði í umsóknarferlinu og hafa fengið ótal sjónarmið ólíks fólks. Upp að vissu marki eru fyrirtækin þannig fyrr fjárfestingarhæf ef svo má segja. Áhugi fjárfesta á fyrirtækjum úr viðskiptahröðlunum hefur vaxið ár frá ári. Það sést bæði í fjölda þeirra sem sækja fjárfestadaginn og þeim upphæðum sem fyrirtækin hafa fengið. Á miðju ári 2015 höfðu þátttakendur í viðskiptahröðlunum fengið um 700 milljónir króna frá utanaðkomandi fjármögnun, bæði í formi styrkja og fjárfestingu. Erfitt er að fullyrða hvort þessi fjármögnun sé einungis fyrir tilstilli hraðlanna en leiða má að því líkur að Startup Reykjavík og Startup Energy Reykjavík hafi að minnsta kosti komið fyrirtækjunum á kortið.

2013_9teymi
Þannig þarf frá sjónarhóli fjárfestis fyrst og fremst að horfa á teymið, breiddina í því og getu einstaklinga til að framkvæma og ekki síður að vinna saman sem ein heild. Enginn virkur fjárfestir kemur inn í sprotafyrirtæki með skammtímasjónarmið í huga. Slíkum fjárfesti verður trauðla ágengt. Fjárfesting í sprotafyrirtæki snýst fyrst og fremst um langtímasamstarf þar sem unnið er saman að krefjandi verkefni. Því þurfa fjárfestarnir, stofnendur og framtíðarstarfsmenn að geta unnið saman þar sem rétt blanda af trausti og starfsgleði fyrirfinnst. Flestir þekkja líklegast bæði vel að hafa unnið með einstaklingum sem hægt er að treysta og ekki. Á slíku samstarfi er mikill munur. Trúverðugleiki í orði og hátterni er vísa sem aldrei verður of oft kveðin. Fólk vinnur sér inn traust með gjörðum sínum. Gleði og ánægja yfir því að starfa á þeim vettvangi sem fólk kýs sér er langt í frá sjálfsögð. Frumkvöðlar hafa valið sér starf, að byggja upp eigið fyrirtæki, sem er ekki alltaf auðvelt. Að finna ánægjuna í því samstarfi, við aðra hluthafa og starfsmenn, er krefjandi og þeim mun mikilvægara að njóta þeirrar rússíbanareiðar sem rekstur sprotafyrirtækis er. Stofnun fyrirtækis er jafnan stór ákvörðun og þó svo að einstaklingur taki skrefið er ekki þar með sagt að hann eða hún sé frumkvöðull. Að vera frumkvöðull er að hluta lífsstíll eða lífssýn. Að efast stöðugt og setja spurningarmerki við þær lausnir sem í boði eru, endurhanna þær og móta í þeim tilgangi að finna nýjar lendur að vinna.

Mannlegi þátturinn

Það fólk sem ég held að sé líklegast til að ná árangri eru einstaklingar sem átta sig á hversu lítið þeir vita í raun og eru af þeim sökum reiðubúnir að taka ábendingum um það sem betur má fara. Þetta fólk horfir á Ísland sem fyrsta markaðinn áður en haldið er út í heim. Það áttar sig á sínum eigin takmörkunum og sækir þekkingu til annarra. Það efast almennt um DSC_1760flesta hluti og vill fá staðreyndir á borðið áður en ein leið er farin en ekki önnur. Þessir frumkvöðlar deila sigrum og ósigrum innan skynsamlegra marka og fagna eða hvetja áfram samferðafólk sitt eftir atvikum. Þeir eru ekki fastir í kreddum eða kúldrast á kantinum. Þeir eru í hringiðu alþjóðlegrar hreyfingar sem frumkvöðlaumhverfið er og horfa ekki á landamæri til flokkadrátta eða skiptingu gæða. Þeir kvarta síður, en gera það besta úr stöðunni. Þeir stinga á kýlin í kringum sig þegar þess þarf og rýna til gagns en ekki niðurrifs. Þetta góða fólk er á öllum aldri með opinn hug að vopni.

Einstaklingar eða fyrirtæki sem ná árangri eru nánast undantekningalaust á þeim stað sem þeir eru af góðri ástæðu, hvort heldur sem um er að ræða frumkvöðla, listamenn, vísindamenn eða fólk úr viðskiptalífinu. Að komast langt er jafnan afleiðing þrotlausrar vinnu og útsjónarsemi í bland við heppni. Líklegast er þó opinn hugur það sem einkennir allflesta sem ná framúrskarandi árangri.

Einfalt sagt hefur mannlegi þátturinn í fyrirtækjarekstri meira um árangur að segja en viðskiptahugmyndin sjálf.

 

Þessi pistill birtist fyrst í bókinni Toppstöðinni, sem kom út rétt fyrir jólin 2015.

Leave a Reply

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s